24.2.2008 21:41

Sunnudagur, 24. 02. 08.

Á ruv.is birtist þetta í dag:

„Niðurstaða Vilhjálms um að hann haldi áfram sem oddiviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna en að óákveðið sé hver verður borgarstjóri á næsta ári hefur engin áhrif á meirihlutasamstarfið í borginni, segir Ólafur F. Magnússon.

Hann segir engu máli skipta hvaða borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks taki við embætti borgarstjóra. Meirihlutasamstarfið byggi á traustum málefnasamningi.“

Hér er vísað til þess, að borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna hittist klukkan 11.00 í morgun með Geir H. Haarde, formanni flokksins, og ræddi stöðuna innan flokksins. Niðurstaðan varð, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson héldi áfram sem oddviti og formaður bogarráðs en skilið var eftir óákveðið, hvaða sjálfstæðismaður tæki við af Ólafi F. sem borgarstjóri.

Í þættinum Mannamáli hjá Sigmundi Erni á Stöð 2 í kvöld minnti Geir H. Haarde á, að við myndun meirihluta sjálfstæðismanna og Ólafs F. í borgarstjórn hefði í yfirlýsingu verið talað um, að Vilhjálmur Þ. tæki við af Ólafi F. Nú væri þetta opið.

Þegar Davíð Oddsson samdi við Halldór Ásgrímsson um, að Halldór tæki við embætti forsætisráðherra af sér, var samkomulagið bundið við Halldór - Geir H. Haarde varð forsætisráðherra en ekki framsóknarmaður, þegar Halldór hætti. Nú verður sjálfstæðismaður borgarstjóri, þegar Ólafur F. hættir, þótt það verði annar en Vilhjálmur Þ.

Á ruv.is mátti einnig lesa, að Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sæktist eftir því að verða borgarstjóri á næsta ári.

Yfirlýsing Hönnu Birnu í þessa veru er eðlileg og vel ráðin í ljósi þess, sem ákveðið var í borgarstjórnarflokknum í morgun.