23.2.2008 23:19

Laugardagur, 23. 02. 08.

Í dag skrifaði ég vettvang í næsta hefti Þjóðmála, sem Jakob F. Ásgeirsson, ritstjóri, er að búa til prentunar. Ég fer yfir gang OR/REI málsins og dreg höfuðþætti þess saman á einn stað.

Sagan er með ólíkindum og í raun stórundarlegt, að tekist hafi að haga umræðum, eins og um sérstakan vanda sjálfstæðismanna í borgarstjórn sé að ræða - sex borgarfulltrúar sjálfstæðismanna stöðvuðu framgang málsins í byrjun október og réttmæti málstaðar þeirra var síðan staðfest með skýrslu stýrihóps allra flokka 7. febrúar.

Brýnt er fyrir Sjálfstæðisflokkinn að komast úr þessari stöðu í borgarstjórn og sjá til þess, að umræður fari að snúast um annað en innri mál borgarstjórnarflokksins eða Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, oddvita hans. Vilhjálmur Þ. ræður þar greinilega mestu sjálfur og samkvæmt fréttum er hann enn og aftur að ræða framtíð sína við trúnaðarmenn og félaga í borgarstjórnarflokknum um þessa helgi.