21.2.2008 18:23

Fimmtudagur, 21. 02. 08.

Ókum til Dover frá London og heimsóttum þar Dover Maritime Rescue Co-ordination Centre og fræddumst um leit og björgun auk þess sem því var lýst fyrir okkur, hvernig umferð um Ermarsund er stjórnað. Það sást ekki yfir til Frakklands vegna misturs, en þeir sögðu okkur, að úr vakthúsinu væri unnt með öflugum sjónauka að sjá vísana á franskri kirkjuklukku handan við sundið, ef veður og birta leyfði.

Ferjuumferð um Dover-höfn er mikil og hún hefur ekkert minnkað, þótt göngin séu komin undir Ermarsund, þvert á móti hefur hún aukist um Dover.

Frá Dover ókum við á Heathrow-flugvöll og er þetta skrifað þar í bið eftir flugvélinni til Íslands.

Af hálfu breskra stjórnvalda hefur verið einstaklega vel tekið á móti okkur, sem höfum tekið þátt í þessum fundum undanfarna daga. Ég tel brynt, að treysta og efla samstarf við Breta á sviði löggæslu og við leit og björgun.

Þegar við vorum í stjórnstöðinni í Dover bárust þær fréttir til yfirmanna landhelgisgæslunnar, sem voru með í för, að lítil flugvél hefði farið í hafið suðaustur af Íslandi og kallað hefði verið eftir aðstoð Nimrod-eftlrlitsþotu frá Kinloss í Skotlandi. Nimrod-þotur eru þar til taks með tveggja tíma fyrirvara og eru öflugustu eftilitsvélar í næsta nágrenni Íslands.