20.2.2008 18:02

Miðvikudagur 20. 02. 08.

Fundir hófust í London klukkan 08.45 hjá Metropolitan Police. Fyrsti viðmælandi var Anthony Steen, þingmaður úr Íhaldsflokknum, sem sagði okkur frá reynslu sinni af því að taka þátt í starfi lögreglunnar samkvæmt sérstökum samningi við breska þingið um að gefa þingmönnum tækifæri til þess. Hann einbeitir sér nú að því að berjast gegn mansali.

Síðan komu foringjar í lögreglunni og gerðu okkur grein fyrir einstökum þáttum í starfi hennar.

Síðdegis fórum við að nýju í breska þingið og hittum þar Jim Fitzpatrick, þingmann og ráðherra, sem fer meðal annars með leit og björgun. Ræddum við nýjar aðstæður á N-Atlantshafi vegna siglinga með gas og olíu frá Barentshafi auk ferða skemmtiferðaskipa í norðurhöfum.