16.2.2008 17:43

Laugardagur 16. 02. 08.

Flugum til London í morgun en ég verð hér á fundum með breskum stjórnmálamönnum og embættismönnum fram á fimmtudag. Hér er bjart en frekar kalt og vindasamt.

Sigurður Líndal heldur áfram að rita um skipun dómara í Fréttablaðið í dag og dregur okkur nokkra í dilk, sem hann kennir við „sannleikssniðgöngu“, af því að við erum ekki sammála honum. Er með nokkrum ólíkindum að vera sakaður um að slíta „texta úr samhengi til að hagræða umræðu“ fyrir að draga ályktun af orðum Sigurðar, sem er honum óþægileg. Engar tilraunir Sigurðar til að skrifa sig frá þessum orðum breyta efni þeirra. 

Neikvæðar alhæfingar Sigurðar Líndals um stjórnmálastörf og stjórnmálaumræður einkennast fyrst og síðast af yfirlæti prófessorsins, sem talar niður til alls og allra. Þar skilur á milli hans og okkar hinna, sem hann ætlar að reyna að siða eða gera ómerka með skrifum sínum.

Málum er hins vegar einfaldlega þannig háttað, að við höfum fullan rétt til skoðana okkar og til að láta þær í ljós, hvað sem umvöndunum Sigurðar líður. Hann hefur ekki neinn einkarétt á útleggingum í þessu ágreiningsmáli um aðferð við skipan dómara frekar en í öðrum málum.