15.2.2008 22:17

Föstudagur, 15. 02. 08.

Klukkan 18.00 var ég í Grafarvogskirkju og flutti 8. passíusálm við stutta en hátíðlega athöfn undir forystu séra Vigfúsar Þórs Árnasonar.

Nú dregur að 13 ára afmæli þessarar vefsíðu. Engri síðu einstaklings hefur líklega verið haldið úti samfellt jafnlengi og þessari hér á landi og þótt víðar væri leitað. Ég lít ekki á þetta sem bloggsíðu, enda var bloggið ekki komið til sögunnar, þegar ég hóf þessa iðju mína. Á hinn bóginn tengist síðan mbl.is samkvæmt sérstöku samkomulagi við þá, sem sjá um bloggið á þeirri síðu.

Mér finnst miður, að sjá dagblöð færast nær blogginu frekar en skerpa sérstöðu sína gagnvart því, þegar æ fleiri hafa tekið til við að blogga. Eitt er að dagblöð haldi úti eigin vef- og bloggsíðum, hitt að dagblöðin séu full af tilvísunum í blogg, svo að ekki sé talað um, að farið sé að skrifa þau eins og um bloggsíðu sé að ræða.