14.2.2008 21:01

Fimmtudagur, 14. 02. 08.

Undarlegt er að fylgjast með hröðum flótta Dags B. Eggertssonar frá eigin afstöðu í OR/REI málinu sl. haust. Þá taldi hann regnihneyksli, að sex sjálfstæðismenn skyldu bregða fæti fyrir, að hið nýja REI kæmi til sögunnar. Í fréttum hljóðvarps ríkisins 12. október 2007 sagði:

„Dagur segir ekkert athugavert við það að mynda nú meirihluta með Birni Inga Hrafnssyni þótt hann hafi átt virkan þátt í því að samþykkja samruna REI og Geysis Green Energy og heimila kaup einstaklinga á stórum hlutum í REI. Dagur B. Eggertsson: Ég held að Björn Ingi sé eini maðurinn í þessu máli sem hafi beðist afsökunar á þessum hlutum og hann er tilbúinn í þennan leiðangur með okkur sem að við höldum allra hluta vegna sé mjög brýnn og í þágu almannahagsmuna. Það er einmitt það sem að mér finnst þessi meirihluti snúast um.

Nú hefur allt gengið eftir, sem sexmenningarnir í Sjálfstæðisflokknum vildu og fyrir liggur sameiginleg skýrsla frá borgarfulltrúum allra flokka, sem sýnir, hve fráleitur allur málatilbúnaður var á bakvið REI-fyrirtækið, sem Dagur B. taldi í Morgunblaðs-grein, að væri heilladrjúgt framtíðarskref. Þá lætur Dagur B. eins og hann hafi ekkert af þessu viljað, þar sem hann hafi ekki vitað um 20 ára einkaréttarsamning OR við REI!

Fréttir berast um, að FL-group hafi selt hlut sinn í Geysi Green Energy, sem átti að sameinast REI í eigu OR og mynda nýtt REI, en hið nýja fyrirtæki átti að græða tugi milljarða á örskömmum tíma. FL-group tapaði um 70 milljörðum króna á síðasta ári - Íslandsmet. Enn er ekki séð fyrir endann á því, hvernig fyrirtækið verður, þegar fram líða stundir. Allt bendir til, að það hafi átt að bæta stöðu þess með fjárhagslegri tengingu við OR í gegnum REI og einmitt þess vegna hafi verðmæti REI verið talað upp á þann veg, sem gert var í lok september og byrjun október í síðasta ári.

Í fréttum Stöðvar 2 hinn 13. október sagði:

„Eignir Reykjavík Energy Invest verða á bilinu 180 til 300 milljarðar króna þegar félagið fer á markað árið 2009 ef áætlanir fyrirtækisins standast. Þetta kom fram á kynningarfundi sem Bjarni Ármannsson og Hannes Smárason héldu fyrir hugsanlega fjárfesta í Lundúnum á dögunum. Á fundinum var fyrirtækið kynnt af FL Group sem leiðandi fjárfestingafyrirtæki í jarðvarmaverkefnum.“