13.2.2008 20:37

Miðvikudagur, 13. 02. 08.

Flaug kl. 08.45 til Ísafjarðar ásamt með Þorsteini Geirssyni ráðuneytisstjóra og Þórunni J. Hafstein skrifstofustjóra. Halldór Halldórsson bæjarstjóri, sem var hvatamaður heimsóknar okkar, og Kristín Völundardóttir sýslumaður tóku á móti okkur á flugvellinum.

Við heimsóttum Edinborgarhúsið, tónlistarskólann, Safnahúsið og kirkjuna fyrir hádegi. Alls staðar var vel á móti okkur tekið og hvarvetna hrifumst við af því, hve vel er að öllu búið og glæsilega.

Á sínum tíma kom ég að ákvörðunum um, að Edinborgarhúsið, Húsmæðraskólahúsið, sem nú hýsir tónlistarskólann, og gamla sjúkrahúsið, þar sem nú er bóka- skjala- og byggðasafn, skyldu falla undir skilgreiningu á menningarhúsum, þannig að ríkissjóður hefur komið að því með bæjarsjóði að búa húsin undir þessi nýju verkefni. Hefur verið einstaklega vel staðið að framkvæmd þessara ákvarðana. Kirkjan sómir sér einnig vel og altaristafla Ólafar Nordal er einstakt listaverk.

Í hádeginu hélt ég fund með trúnaðarmönnum Sjálfstæðisflokksins. Síðan hitti ég lögreglumenn og hélt fund með sýslumanni um málefni embættisins og eflingu þess. Loks var efnt til fundar með bæjarstjórn og fleirum undir forsæti Birnu Lárusdóttur, forseta bæjarstjórnar, og ræddum við sameiginleg viðfangsefni, þar til tímabært var að halda aftur út á flugvöll en þaðan hélt vél Flugfélags Íslands á áætlun klukkan 17.30.