12.2.2008 19:14

Þriðjudagur, 12. 02. 08.

Þeir Kristófer Helgason og Þorgeir Ástvaldsson í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni ræddu við mig í dag, en við þá ræði ég oftast allra fjölmiðlamanna, enda er hlustun á þátt þeirra mikil.

Að þessu sinni sagði ég þeim frá því, að embættismenn mínir hér og í Brussel hefðu verið í sambandi við málsvara innanríkisráðuneytis Litháens um, að dæmdir Litháar hér á landi tækju út refsingu sína í fangelsum í Litháen. Þætti mér líklegt, að þetta næði fram að ganga.

Þá sagði ég þeim frá því, að ég teldi að nýta ætti það, sem kallað hefur verið „rafræn öklabönd“ með GPS-staðsetningarbúnaði sem refsiúrræði hér á landi. Til dæmis væri unnt að búa þannig um hnúta, að tækið sendi frá sér viðvörunarmerki, ef maður í farbanni væri á ferð í nágrenni flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Hefur verið hafinn nauðsynlegur undirbúningur til að unnt verði að nýta þessa tækni.

Undrun vakti fyrir skömmu, þegar hér komu fram málsvarar þess sjónarmiðs, að Jyllands-posten hefði misnotað málfrelsi með birtingu Múhameð- skopmynda. Nú hefur verið sagt frá því, að í morgun hafi danska lögreglan handtekið nokkra menn í Árósum, sem höfðu á prjónunum að myrða Kurt Westeraard, teiknara Jyllands-postens. Teiknarinn hefur verið undir lögregluvernd undanfarna þrjá mánuði vegna grunsemda leyniþjónustu dönsku lögreglunnar, PET, um að verið væri að undirbúa aðför að honum.