11.2.2008 22:14

Mánudagur, 11. 02. 08.

112 dagurinn var haldinn hátíðlegur í dag og boðaði Neyðarlínan til athafnar við Skógarhlíð. Lögreglukórinn söng, ég flutti ávarp, fulltrúi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna afhenti verðlaun til barna fyrir þátttöku í eldvarnagetraun. Rauði kross Íslands heiðraði feðgana Sveinbjörn Grétarsson og Tómas Sveinbjörnsson sem skyndihjálparmenn ársins 2007 fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu.

Kona Sveinbjörns, Guðrún Hauksdóttir, hafði fundið fyrir slappleika en ekkert óeðlilegt greinst við læknisskoðun. Seint að kvöldi 26. september var hún að horfa á sjónvarpið þegar Sveinbjörn verður þess var að hún er eins og í krampakasti og hryglir í henni. Hann gerði sér umsvifalaust grein fyrir að hún var meðvitundarlaus, hringdi í Neyðarlínuna og hóf endurlífgun. Sveinbjörn vissi, að það getur tekið langan tíma fyrir sjúkrabíl að aka upp á Kjalarnes þar sem þau búa, og sendi hann Tómas 6 ára son sinn til að sækja nágranna þeirra, Þórð Bogason, sem unnið hefur í slökkviliði og sjúkraflutningum í fjöldamörg ár. Tilviljun ein réði því að Þórður var heima, og aðstoðaði hann Sveinbjörn við endurlífgunina. Þórður kallaði einnig til björgunarsveitina Kjöl, sem kom með súrefni á staðinn áður en sjúkrabíllinn kom og læknishjálp barst. Guðrún hefur náð sér ótrúlega vel af veikindunum og tók þátt í athöfninni í dag.

Eftir athöfnina fór ég í beina útsendingu í Íslandi í dag á Stöð 2 og höfðu spyrjendur mestan áhuga á að vita, hvað mér þætti um atburði dagsins í brogarstjórnarflokki sjálfstæðismanna. Svaraði ég eftir bestu getu og lauk samtali okkar á því, að kannski hefði verið gott fyrir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson að geta hringt í 112 til að fá pólitíska ráðgjöf eða hjálp. Minnti ég, að helsti boðskapur dagsins að þessu sinni væri einmitt að hringja strax í stað þess að eyða tíma í að velta fyrir sér, hvort maður ætti að hringja.