10.2.2008 18:24

Sunnudagur, 10. 02. 08.

Gekk út við Gróttu í morgun og í kringum golfvöllinn á Nesinu. Það blés töluvert og brotnuðu miklar öldur úti á Flóanum. Eiðsgrandinn var ófær og verið að hreinsa af honum grjót og sjávargróður. Á torginu framan við Jóns Loftssonar-húsið var svo mikill vatnselgur, að varasamt var fyrir venjulega fólksbíla.

Ég sá á einhverri vefsíðu fyrirsögn um, að ég hefði sagt ósatt í pistli mínum með endursögn af orðaskiptum okkar Egils Helgasonar um stjórnmálaskoðanir þeirra Sigurðar Líndals og Péturs Kr. Hafsteins - en í pistlinum sagðist ég hafa samsinnt orðum Egils um þetta. Sá, sem telur mig segja ósatt með þessum orðum, hefur greinilega aldrei heyrt, að þögn sé sama og samþykki.

Ekki er unnt að kalla það orðhengilshátt, þegar menn taka til við að rífast um, hvað þögn þýðir. Það er hins vegar nokkur bífræfni að taka sér fyrir hendur, að kalla mig ósannindamann fyrir að túlka eigin þögn á þann veg. að ég hafi samsinnt Agli Helgasyni - útskrift af samtali okkar má sjá hér á síðunni.