9.2.2008 15:20

Laugardagur, 09. 02. 08.

Fórum klukkan 17.00 í Grafarvogskirkju og hlýddum á Shlomo Mintz, fiðluleikara, leika 24 Kaprísur Op. 1 eftir Niccoló Paganini. Orð duga ekki til að lýsa þessum einstaka viðburði og þakka ég Hjörleifi Valssyni, fiðluleikara, fyrir hið góða framtak hans að fá Shlomo Mintz til landsins. Leikur og framkoma Mintz var í anda hins hógværa snillings.

Ég hef sett inn á síðuna útskrift af samtali okkar Egils Helgasonar í Silfri Egils sunnudaginn 3. febrúar.

Í grein í Fréttablaðinu í dag leitast Sigurður Líndal við að skrifa sig frá nasista-áburði sínum á Árna Mathiesen en staðfestir jafnframt markmið sitt um að vega að löggjafar- og framkvæmdarvaldinu í þágu dómsvaldsins. Sigurður telur málum svo komið, að fulltrúalýðræðið og þar með þingræðið eigi að lúta dómsvaldinu - og þá eigi dómarar að sjálfsögðu einnig að ráða dómara en ekki framkvæmdavaldið.

Enn hefur sannast síðasta sólarhring, hve björgunarsveitir vinna ómetanlegt starf í þágu allra landsmanna, þegar hættu ber að höndum. 300 björgunarsveitarmenn voru við störf um land allt og sinntu hundruð útkalla í óveðrinu.

Um klukkan 22.00 í gærkvöldi var lokið var við að koma farþegum og áhöfnum , alls um 450 manns, frá borði þriggja flugvéla Icelandair og inn í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mjög hvasst var og lemjandi rigning. Var ekki unnt að aka flugvélum að flugstöðinni. Farþegar biðu í um fimm klukkustundir eftir því að komast frá borði.

Í fréttum sagði, að flugvallarstarfsmenn, flugöryggisverðir, slökkvilið og lögregla hefðu myndað óslitna röð frá dyrum flugvélanna og aðstoðað farþega við að komast að langferðabifreiðum sem flutti þá að flugstöðinni.