4.2.2008 18:41

Mánudagur, 04. 02. 08.

Þetta mátti lesa á fréttavef lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu klukkan 16.05 í dag:

„Þrír menn hafa verið handteknir vegna ránsins sem var framið í útibúi Glitnis við Lækjargötu í Reykjavík klukkan rúmlega níu í morgun. Þar ógnaði maður starfsfólki bankans með exi og hafði síðan eitthvað af fjármunum á brott með sér. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér lýsingu á ræningjanum og fljótlega var maður handtekinn í Aðalstræti en sá var talinn búa yfir upplýsingum um ránið. Öxin, sem fyrr var getið, fannst ekki löngu síðar í herbergi á nálægu gistiheimili og í framhaldinu voru tveir menn til viðbótar handteknir í Garðabæ. Þeir höfðu áður yfirgefið gistiheimilið og haldið þaðan í bíl en annar mannanna reyndist vera með ránsfenginn í fórum sínum þegar til hans náðist. Lögreglan leitar nú fjórða mannsins í tengslum við rannsókn málsins og veit þegar hver hann er.“

Textinn er ekki hlaðinn lýsingaorðum og mætti halda, að það hefði verið sjálfsagt og eðlilegt, að lögreglunni tækist að upplýsa þetta vopnaða bankarán á fáeinum klukkustundum.

Þessi skjóta niðurstaða var auðvitað ekki sjálfsögð. Hana má rekja til snerpu lögreglunnar og góðrar samvinnu þess hóps lögreglumanna, sem kom að því að upplýsa málið. Ég færi þeim þakkir og heillaóskir.