3.2.2008 17:34

Sunnudagur, 03. 02. 08.

Eftir langa fjarveru var ég í Silfri Egils í dag og ræddum við Egil Helgason þau mál, sem hann telur efst á baugi. Ég hafði ánægju af þátttöku í þættinum og skil vel, að Egill skuli kjósa þetta starfsumhverfi frekar en það, sem var í boði síðast þegar ég heimsótti hann, sem er fyrir svo löngu, að ég man ekki, hvenær það var.

Ég sé, að fréttastofa hljóðvarps ríkisins er tekin til við að snúa út úr orðum mínum. Aldrei hefur vakað fyrir mér, að lögfesta neina skyldu fyrir björgunarsveitir til að breytast í varalið. Hugmyndin um liðið byggist á því, að lögregluyfirvöldum sé heimilt að kalla menn til starfa við sérstakar aðstæður, en mönnum sé að sjálfsögðu í sjálfsvald sett, hvort þeir gangi í liðið eða ekki.

Þessi útúrsnúninga-árátta fréttamanna veldur áhugaleysi mínu á að ræða við þá. Hvers vegna spurði fréttamaðurinn mig ekki að því, hvort ætlunin væri að lögbinda skyldu björgunarsveita til að verða varalið lögreglu? Hvers vegna hlustar fréttamaðurinn ekki á það, sem ég sagði í Silfri Egils?

Í fréttinni á ruv.is segir undir lokin: „Formaður Landsbjargar segir að tækju félagar í björgunarsveitum þátt í varaliðinu gætu þeir gert það sem einstaklingar þó ekki væri undir merkjum björgunarsveitanna.“ Þetta er kjarni málsins en ekki hitt, að lögskylda eigi björgunarsveitarmenn til að fara í óeirðavörslu, enda sagði ég í Silfri Egils, að fastalið lögreglu yrði látið sinna hinum erfiðu verkefnum en varaliðið ætti að manna hin daglegu varðstörf.

Í ávarpi í 80 ára afmæli Slysavarnafélags Íslands sagði ég: „Björgunarsveitir eru boðnar og búnar til að aðstoða lögreglu, þegar til þeirra er leitað. Ég tel brýnt, að hið góða samstarf þessara aðila fái viðurkenningu alþingis með ákvæði í lögum um varalið lögreglu.“

Á visir.is má lesa þetta í dag, feitletrun er mín:

„Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Glitni banka, segir að heimilin ættu að öllu jöfnu að ráða við þessa skuldsetningu. Jón telur þó útlit fyrir að verulega muni hægja á einkaneyslu á þessu ári og mælir með því að fólk herði sultarólina og eyði frekari í sparnað.“

Nú leggja menn ekki lengur fyrir heldur eyða í sparnað! Ég hef sannreynt, að málsmekkur fréttamanns ræður þessu sérkennilega orðavali um sultarólina og sparnaðareyðsluna, Jón Bjarki lét þessi orð ekki falla í samtali þeirra.

Klukkan var 20.00 sótti ég tónleika Kammersveitar Reykjavíkur á Myrkum músikdögum í Listasafni Íslands.