2.2.2008 11:46

Laugardagur, 02. 02. 08.

Mælirinn í bílnum sýndi 14 stiga frost í morgun um það leyti sem Laugaradalslaugin var opnuð og við morgunhressir fastagestir tókum okkar daglega sundsprett. Vatnið var nóg og vel heitt. Faðir drengs fylgdi honum að sturtunni og spurði baðvörð, hvers vegna ekki væru blöndundartæki til að hafa hemil á vatnshitanum. „Það þarf kannski einhver að brenna sig?“ spurði hann.

Morgungangan var einnig hressandi og dag frá degi sjást þess skýrari merki, hvernig Háskólinn í Reykjavík mun skera á tengslin milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar í Vatnsmýrinni. Á eyjan.is má lesa þetta:

„Byggingarframkvæmdir eru hafnar við nýbyggingu Háskólans í Reykjavík við rætur Öskjuhlíðar. Byggingin verður um 40000 fermetrar og ein sú stærsta í Reykjavík. Í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík segir að hún sé „hönnuð með það að leiðarljósi að bjóða upp á aðstöðu á heimsmælikvarða fyrir nemendur, kennara og vísindamenn. Skólinn verður einn best búni háskóli í Evrópu og mun nýja húsið gjörbylta aðstöðu til kennslu og vísindastarfa hér á landi.“ Fyrsti hluti byggingarinnar lýkur haustið 2009 og hefst kennsla þar í ágúst það ár. Öll starfsemi HR verður sameinuð í nýja húsinu á árinu 2010.“

Halla Gunnarsdóttir, þingfréttaritari Morgunblaðsins, kallar dóms- og kirkjumálaráðuneytið tölvupóstráðuneyti í vikupistli um störf alþingis (já alþingis) í blaðinu í dag. Ástæðan er pirringur hennar yfir því að hafa verið beðin um að senda spurningu til ráðuneytisins í tölvupósti. Að blaðamenn pirrist yfir því á öld tölvusamskipta að þurfa að nota þau til að afla sér upplýsinga er furðulegt. Þau gera að vísu þá kröfu, að spyrjandinn viti um, hvað hann ætlar að spyrja.

Morgunblaðið fagnar í dag 10 ára afmæli mbl.is. Ég óska blaðinu til hamgingju með hve vel hefur til tekist með vefsíðuna. Henni hefði ekki vegnað jafnvel og raun sýnir, ef lesendur hefðu brugðist við nýbreytni blaðsins með sömu ólund og Halla við óskinni um, að hún orði spurningar sínar í tölvupósti.

Síðan mín er þremur árum eldri en mbl.is. Guðrún Helgadóttir, þingmaður Alþýðubandalagsins, taldi mig vera stíga skref frá almenningi með síðunni. Mér sýnist Halla Gunnarsdóttir sama sinnis, að tölvusamskipti séu einhver hindrun í vegi upplýsingamiðlunar. Hvað er að því að segja, að upplýsinga hafi verið aflað með tölvupósti en ekki í símtali? Plus ça change, plus c’est la même chose.