28.2.2007 20:22

Miðvikudagur, 28. 02. 07.

Fór til starfa í ráðuneytinu í morgun. Sem betur fer beið mín ekki stafli af óafgreiddum málum, þar sem ég hef unnið alla daga á tölvunni síðan ég veiktist og einnig fengið skjöl send til mín bæði á sjúkrahúsið og heim. Hins vegar efndi ég nokkurra funda, meðal annars 40. fundar Evrópunefndar, en við sjáum nú fyrir endann á því mikla starfi, ef allt gengur á þann veg, sem við ræddum í dag.

Starfið í Evrópunefndinni hefur verið lærdómsríkt og ánægjulegt og endurspeglar skýrsla okkar, hve mikilla upplýsinga við höfum aflað.

Mér finnst merkilegt, að eftir alla evru-umræðuna og nauðsyn þess, að hugað sé að upptöku hennar, skuli enginn staldra við það með sama hætti, að Moody's hækkar lánshæfismat íslensku bankanna með vísan til þess, að þeir hafi seðlabanka og sérstakan gjaldmiðil að baki sér - það er starfi ekki með baktryggingu frá seðlabanka Evrópu, sem kom til sögunnar með evrunni. Bendir þetta til þess, að krónan sé ónýt eða þau fjármálafyrirtæki, sem nota hana, séu lítils metin?