25.2.2007 19:02

Sunnudagur, 25. 02. 07.

Nú hef ég náð 40 mínútna gönguhringnum mínum og eykst þrekið jafnt og þétt.

Gekk í dag umhverfis Perluna og um Öskjuhlíðina, sem er vinsælasta útivistarsvæði borgarbúa, auk þess sem tugir ef ekki hundruð ferðamanna heimsækja Perluna á degi hverjum. Ég get ekki orða bundist yfir hirðuleysinu umhverfis þennan fjölfarna stað. Enn má sjá þar merki eftir skotelda og blys á gamlársdag.

Auðvelt er að komast að þeirri niðurstöðu, að í Öskjuhlíðinni, svo að ekki sé minnst á næsta nágrenni Perlunnar, dugi ekki að efna til eins hreinsunardags á ári. Umhverfisvernd í þéttbýli felst í alhliða snyrtimennsku þeirra, sem fara með stjórn þeirra mála í borg og byggð.