Laugardagur, 24. 02. 07.
Þegar ég las fréttaskýringuna á forsíðu Morgunblaðsins í dag, ákvað ég að skrifa næsta pistil um afskipti okkar sjálfstæðismanna af umhverfismálum. Ég vænti þess að senda hann frá mér á morgun. Greinilegt er, að í umhverfismálum eins og svo mörgum öðrum málaflokkum, ræður skammtímaminnið og ekki er leitast við að bregða neinu ljósi á þróun eða framvindu mála.
Með ólíkindum er að fylgjast með því, hve vel hefur tekist að tengja andstöðu við einstakar framkvæmdir við ást á umhverfinu - svo að ekki sé talað um andúðina í garð erlendra stóriðjufyrirtækja, sem ræður miklu um heim allan, hvort sem um umhverfisspjöll er að ræða eða ekki. Á hverjum stað velja andstæðingarnir einfaldlega þann þátt í umræðum og almennu viðhorfi, sem þeir telja sér duga best hverju sinni.