22.2.2007 20:47

Fimmtudagur, 22. 02. 07.

Kölluð hefur verið út hjálparsveit til stuðnings Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar. Greinar í blöðum dag eftir dag um, að hún sæti einelti eða sitji undir meiri gagnrýni en stjórnmálamenn eigi að venjast eru til sanninda um þetta.

Eftir að hafa kynnst hrokafullri framgöngu Ingibjargar Sólrúnar sem borgarstjóra og hvernig hún talaði til þeirra, sem hún taldi sig hafa í fullu tré við í krafti valds síns, get ég ekki annað er brosað að þessari opinberu kvörtunarherferð í hennar þágu. Hér á síðunni hef ég látið þess margsinnis getið, að einkenni stjórnmálastarfa Ingibjargar Sólrúnar sé að skilja eftir sig sviðna jörð. Henni var alveg sama um Kvennalistann, eftir að hann hafði dugað henni til að hefjast til metorða. Hún varð að hrökklast úr borgarstjórastólnum, af því að hún sýndi samstarfsfólki sínu í R-listanum pólitíska lítilsvirðingu og sagðist víst geta farið sínu fram, hvað sem það segði.

Hið sama hefur raunar einnig átt við, þegar málefni eru annars vegar. Eitt dæmi um það er til umræðu núna, en það er samkomulagið, sem hún hrósaði sér að hafa gert um framtíð Laugavegarins skömmu fyrir borgarstjórnarkosningar árið 2002. Þar stendur ekki lengur steinn yfir steini, vegna þess hve illa var að málum staðið frá upphafi. Henni tókst þar að kaupa sér frið, sem síðan fólst í því einu að borgin keypti Stjörnubíósreitin af Jóni Ólafssyni.

En hver er það, sem harðast vegur að Ingibjörgu Sólrúnu um þessar mundir? Jú, enginn annar en Jón Baldvin Hannibalsson sem talaði um Samfylkinguna sem ónýta undir hennar stjórn. Að andstæðingar Samfylkingarinnar í öðrum flokkum hafi verið að sauma að Ingibjörgu Sólrúnu er úr lausu lofti gripið. Andstaðan er innan flokksins, sem sér að hætta er á því, að Ingibjög Sólrún skilji eins við Samfylkinguna og Kvennalistann og R-listann. Innan Samfylkingar er einfaldlega spurt: Hvort eigum við heldur að losa okkur við Ingibjörgu Sólrúnu eða láta flokkinn líða undir lok?