21.2.2007 19:21

Miðvikudagur, 21. 02. 07.

Deilan sem Ólafur Ragnar Grímsson stofnaði til við Halldór Blöndal í viðtali við Egil Helgason á Stöð 2 sunnudaginn 18. febrúar er einkennileg.

Í viðtalinu sagði Ólafur Ragnar: „Ég er nú búinn að þekkja Halldór Blöndal lengi, og margt gott um hann, en margt af því sem hann sagði byggðist nú ekki á réttum skilningi á stjórnarskránni, var kannski svona álíka brotalöm eins og þegar hann var að svara mér eftir innsetningarræðuna árið 2000. Í ræðustól forseta Alþingis talaði hann um Bandaríkin sem öflugasta þingræðisríki í veröldinni, en það er einmitt kjarninn í Bandaríkjunum að það er ekki þingræðisríki.“

Halldór Blöndal ritar af þessu tilefni grein í Morgunblaðið í dag. Hann segist hafa rifjað upp efni ræðu sinnar við þingsetningu árið 2000 og hann hafi ekki notað þessi orð um stjórnarfar Bandaríkjanna þar, hafi hann yfirleitt notað þau, hefði verið um mismæli að ræða. Ræðu Halldórs geta allir lesið á vef alþingis.

Þar sem forsetar hafa völd, er farið gargnrýnum augum yfir allt, sem þeir segja í fjölmiðlum og sérstaklega í viðtölum á borð við það, sem var við Ólaf Ragnar sl. sunnudag, Hingað til hafa menn einkum staldrað við undarlega túlkun ÓIafs Ragnars á stjórnarskránni, þegar hann ræddi vald forseta andspænis einstökum ráðuneytum. Að Ólafur Ragnar skuli einnig segja rangt frá, þegar hann vitnar í Halldór Blöndal, virðist gefa tilefni til að fara betur í saumana á þessu viðtali, þótt ekki sé hin sama aðstæða til þess hér og í löndum með valdamikinn forseta, því að hér er hann valdalaus.