20.2.2007 20:08

Þriðjudagur, 20. 02. 07.

Klukkan 12.45 fór ég af sjúkrahúsinu, útskrifaður með því fororði, að ég færi hægt af stað. Miðað við mína góðu reynslu af ráðum þeirra, sem þar starfa, mun ég að sjálfsögðu hlíta þessu. Ég kvaddi með þakklátum huga fyrir góða umönnun og farsæla leið til bata. Ég þakka einnig öllum þeim, sem hafa sent mér kveðju í veikindunum og þeim vinum mínum, sem litu inn til mín. Ég hvatti ekki til heimsókna en þeir fáu, sem komu, styttu mér stundir og oft var glatt á hjalla.

Ég sá á vef BBC í gær, að í Bretlandi hafa yfirvöld öryggismála hvatt til þess, að aflétt verði banni við að hlera síma þingmanna við rannsókn mála. Harold Wilson, forsætisráðherra Breta, setti þetta bann fyrir rúmum 40 árum. Lögreglan telur, að bannið þjóni ekki hagsmunum ríkisins en Tony Blair treystir sér ekki til að afnema það vegna mótmæla frá þingmönnum. Af frétt BBC má helst ráða, að aðeins í Bretlandi, af Evrópulöndum, sé slíkt bann við að hlera síma þingmanna í gildi. Málsvarar þess, að bannið sé afnumið, segja óeðlilegt í lýðræðisríki, að stjórnmálamenn séu að þessu leyti settir í annan flokk en allur almenningur. Mér hefur helst skilist á vinstrisinnum hér á landi, að þeir telji slíka stéttarskiptingu eðlilega.

Ég hef ekki séð neina frétt um þetta mál í blöðum hér eða á vefsíðum. Ég tók þá ákvörðun, þegar ég lagðist inn á sjúkrahúsið fyrir tveimur vikum að hlusta hvorki á útvarp né horfa á sjónvarp. Það hefur ekki tafið fyrir bata mínum en kannski hef ég misst af þessari frétt og einhverjum öðrum fyrir bragðið. Ég viðurkenni hins vegar fúslega, að mér finnst ég ekki hafa misst af neinu.