19.2.2007 20:40

Mánudagur, 19. 02. 07.

Fór í rannsóknir og myndatökur, Tómas Guðbjartsson læknir úrskurðaði, að það mætti taka úr mér drenið og var það gert rúmlega 15.00 eða réttum tveimur vikum, eftir að það var sett í mig. Lungað hefur lokast og loftlekinn stöðvast. Það er nokkur léttir að losna við þetta úr líkamanum, gatið var saumað saman og mun síðan gróa. Nú fer ég að búa mig til heimferðar. Ég á eftir að sakna hinnar góðu hjúkrunar og umhyggju, sem ég hef notið hérna.

Í dag eru tólf ár síðan ég færði fyrstu færsluna á síðuna mína. Þetta er langur tími og margt hefur verið látið flakka. Þetta er örugglega elsta vefsíðan, sem aldrei hefur rykfallið allan þennan tíma. Þrátt fyrir að sumum vinum mínum, þyki ég stundum taka dálítið stórt upp í mig, hefur síðan verið mér mjög gagnleg. Úlfaþytur, sem stundum hefur orðið vegna þess, sem hér hefur staðið, er eins og uppgjafarandvarp, þegar til baka er litið.

Ég þakka öllum tæknimönnum, sem hafa aðstoðað mig við að halda síðunni úti, án þolinmæði þeirra, einkum á árum áður, hefði ég örugglega hætt að glíma við þessa ótrúlegu tækni. Hin síðustu ár hefur Hugsmiðjan haldið utan um tæknilega umgjörð síðunnar með miklum ágætum.

Eitt er víst, að án aðgangs að netinu og síðunnar hefði dvöl mín hér á Landpítalanum orðið mér leiðinlegri.

Jón Þorsteinsson söngvari hafði samband við mig vegna þess sem ég sagði um Wagner-fjölskylduna á síðunni í gær, en þar var vitlaust dánardægur Cosimu, ekkju Wagners. Það hefur nú verið leiðrétt. Jón sagði mér einnig, að hann hefði sungið í Bayreuth, líklega fyrstur Íslendinga, árið 1979 og þá hitt Winifred Wagner, sem lést ári síðar.