18.2.2007 21:07

Sunnudagur, 18. 02. 07

Í dag gat ég farið í sturtu í fyrsta sinn, síðan ég kom hingað á LSH og var það hressandi. Síðan gekk ég dálítið um gangana, en átökin, þegar líkaminn tók við talkúminu, hafa reynt á mig, því að fram eftir degi sótti að mér þreyta.

Það er byrjað að búa mig undir útskrift en einhverjar rannsóknir eru nauðsynlegar, áður en til hennar kemur.

Að mér streymir alls kyns fróðleikur um Wagner. Þegar við fórum til Bayreuth í sumar kynntu þau hjónin Árni Tómas Ragnarsson og Selma Guðmundsdóttir, formaður Wagner-félagsins á Íslandi, okkur fyrir vinafólki sínu Wolfgang, sonarsyni Wagners, og Gudrun, seinni konu hans. Wolfgang er er fæddur 1919. Hann vill ekki láta af stjórn Bayreuth-hátíðarinnar, án þess að tryggja konu sinni, sem er fædd 1944 og helst dóttur þeirra hjóna, Katharinu Friderike, sem er fædd 1978 hlutdeild í forystu hátíðarinnar, en langafi hennar Richard Wagner lifði frá 1813 til 1883.  Við hittum einnig Katharinu með foreldrum hennar síðastliðið sumar og má með sanni segja, að þessir ættliðir spanni langan tíma.

Rík hefð er fyrir því í Wagner-fjölskyldunni, að ekkjur leiði hátíðina eins og Cosima eiginkona Wagners, en hún dó 92 ára í apríl 1930, frá því um aldamótin lét hún lítið á sér bera en réð því, sem hún vildi. Siegfried sonur Wagners og Cosimu andaðist nokkrum mánuðum á eftir móður sinni, 61 árs í ágúst 1930. Þá fell forystan í hendur Winifred, ekkju hans, en hún dó 1980, sonur þeirra Wieland stjórnaði hátíðinni með móður sinni, þar til hann lést 1966 og þá tók Wolfgang við hlutverki hans. Afkomendur Wielands telja síður en svo sjálfgefið, að kona Wolfgangs eða dóttir taki við af honum. Wolfgang situr því sem fastast.