13.2.2007 19:05

Þriðjudagur, 13. 02. 07.

- Þetta er bara tími, sagði læknir, þegar hann kvaddi mig hér á sjúkrastofunni í kvöld.

Þá er ekkert annað en gefa sér þennan tíma og ekki drepa hann. Ég er vel birgur af bókum og vinn að málum embættis míns á tölvunni eða í tengslum við ráðuneyti mitt. Þá ætla ég að hlusta á nokkrar Wagner-óperur til að búa mig undir næstu ferð okkar Rutar til Bayreuth. Hún er nú með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikaferð í Þýskalandi og allt suður til Zagreb í Króatíu. Fyrstu tónleikarnir voru í gærkvöldi í Köln og var hljómsveitinni einstaklega vel tekið, varð að leika síðasta aukalagið - Á Sprengisandi - tvisvar sinnum. Fylgjast má með ferðalagi hljómsveitarinnar hér.

Hljómburður í tónlistarhúsinu í Köln þykir afbragðsgóður. Að hlusta á Sinfóníuhljómsveit Íslands leika við slíkar aðstæður eða í Háskólabíói er eins og dagur og nótt. Nú er unnt að telja árin á fingrum annarrar handar, þar til okkur gefst tækifæri til þess njóta frábærs hljómburðar hér að heimaslóð í tónlistarhúsinu, sem tekið er að rísa. Við allan undirbúning byggingarinnar hefur verið lögð höfuðáhersla á að slaka alls ekki á neinu í kröfum um hljómburð. Ég er þess fullviss, að hinir metnaðarfullu menn, sem standa að Portus munu fylgja þessum kröfum fram af sama stórhug og einkenndi þá ákvörðun þeirra að hafa konsertorgel í tónleikasalnum.

Í næstu viku stóð til, að ég yrði í Harvard-háskóla, nánar tilgreint í John F. Kennedy School of Government, og flytti þar erindi um loftlagsbreytingar, öryggismál og siglingar á N-Atlantshafi. Ég hef orðið að blása ferðina af, þótt loftlekinn stöðvaðist í nótt, mætti ég ekki fara í svo langt flug í næstu viku.