11.2.2007 20:19

Sunnudagur, 11. 02. 07.

Lítil tíðindi eru héðan úr sjúkrastofunni. Batinn er hægur en vonandi öruggur.

Það er kannski vegna þess, að ég ligg hér á Landspítalanum, að ég staldra frekar en ella við það, sem um hann segir í blöðunum. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem birtist í dag segir til dæmis vegna komandi þingkosninga:

„Eru stjórnmálaflokkarnir tilbúnir til að taka þátt í því að losa heilbrigðiskerfið allt og Landspítala – háskólasjúkrahús sérstaklega úr þeirri spennitreyju, sem heilbrigðisþjónustan hefur verið í? Þessi spennitreyja er farin að hafa mjög alvarleg áhrif á þá þjónustu, sem sjúkir og lasburða fá í okkar kerfi.“

Ég er ekki viss um, að ég skilji alveg, hvað felst í þessum orðum. Ég er hins vegar viss um, að tímabært er orðið fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fá tækifæri til að takast á við heilbrigðismálin með stjórn ráðuneytis þeirra. Þetta segi ég ekki til að gagnrýna aðra heldur til að láta í ljós þá skoðun, að viðhorf sjálfstæðismanna til breytinga í ríkisrekstri mundu örugglega ekki herða á neinni spennutreyju, sé hún fyrir hendi.

112 dagurinn er í dag og af því tilefni var sérstaklega minnst framlags sjálfboðaliða til björgunar, leitar og annarra starfa í þágu öryggis okkar borgaranna. Það mikla starf verður aldrei fullþakkað.