10.2.2007 19:27

Laugardagur 10. 02. 07.

Nú hef ég verið hér á Landspítalanum síðan á mánudag og hefur mér liðið vel miðað við aðstæður mínar. Hið eina sem á skortir er að minn eigin líkami færist í samt lag og sárið á lunganu grói. Atlætið er gott og vel um mig hugsað.

Í leiðara Morgunblaðsins í morgun er fjallað um öryggi sjúklinga í tilefni af málþingi, sem efnt var til á vegum landlæknis. Í leiðaranum segir meðal annars:

„Gestur þingsins á fimmtudag var Liam Donaldson, landlæknir Bretlands, sem hefur gegnt starfinu frá 1998 og lagt ríka áherslu á öryggi sjúklinga. Í viðtali Kristjáns Jónssonar við Donaldson í Morgunblaðinu á miðvikudag segir hann að rannsóknir, sem gerðar hafi verið við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, hafi bent til þess að tíundi hver sjúklingur, sem lagður væri inn, fengi ranga meðhöndlun. Kannanir annars staðar í Bandaríkjunum, í Ástralíu, á Nýja-Sjálandi og í Bretlandi hefðu staðfest að hlutfallið væri líklega nálægt þessu.

Í lýsingu frá landlæknisembættinu á rannsóknarverkefninu, sem nú á að ráðast í, er vísað í skýrslur á borð við þær, sem Donaldson nefnir. Síðan segir: „Á Landspítalann leggjast rúmlega 30 þúsund manns á ári og sé meðaltal ofangreindra niðurstaðna heimfært þangað má gera ráð fyrir að um 2500 manns verði fyrir óvæntum skaða á spítalanum árlega, unnt hefði verið að koma í veg fyrir um 1000 þeirra, tæplega 600 manns hefðu orðið fyrir tímabundnum örkumlum, um 225 hefðu orðið fyrir langvinnum örkumlum og svipaður fjöldi hefði látist.“ Með öðrum orðum hefðu rúmlega 200 manns látist vegna mistaka ef heimfæra má þessar rannsóknir hingað. Samkvæmt því er Landspítalinn hættulegasti staður á Íslandi. “

Mér þótti þetta heldur óþægileg yfirlýsing af blaðsins hálfu og ekki beint hughreistandi kveðja til okkar, sem þurfum að liggja á Landspítalanum „hættulegasta stað á Íslandi“. Enginn fer þangað nema af nauðsyn og víst er, að störfum sínum sinna starfsmenn spítalans af fagmennsku. Á sviði heilbrigðisvísinda eru Íslendingar í fremstu röð á heimsmælikvarða samkvæmt alþjóðlegum könnunum. Kunnáttumenn telja, að sjúkrahús í Bretlandi, þar sem Liam Donaldson er landlæknir, séu 20 til 30 árum á eftir Landspítalanum en setja megi hann í flokk með sjúkrahúsum í Svíþjóð, sem eru í allra fremstu röð.

Ég sé á visir.is, að vitnað er í samtal við Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing á Stöð 2 vegna skýrslu nefndarinnar um kalda stríðs gögnin. Þar segir í lokin: „Einnig segir Guðni að með skýrslunni hafi öll tvímæli verið tekin af um að hleranir hafi átt sér stað á þessum árum og efasemdum þar að lútandi eytt. “ Ég er ekki sammála þessu, því að skýrslan sýnir enn að dómarar hafa heimilað hleranir en ekki, að þær hafi átt sér stað. Skjöl Pósts og síma kunna að taka af skarið um það, en þau hafa ekki verið rannsökuð.