9.2.2007 19:39

Föstudagur, 09. 02. 07.

Tíðindalítið er af mér, enda er ég enn tengdur fastur við vegg hér á LSH, á meðan verið er að dæla úr mér loftinu. Mér finnst þó ekki allur vindur úr mér enn, og víst er, að blessað hægra lungað hefur þanist, þótt ekki sé það enn orðið þétt.

Ástæða er til að fagna því, að nefndin undir formennsku dr. Páls Hreinssonar prófessors um kalda stríðs gögnin hefur lokið störfum og skilað áliti og tillögum. Ætti niðurstaða nefndarinnar að leiða til þess, að umræður um þessi löngu liðnu mál, verði á skynsamlegum grunni en byggist ekki á ímyndunum eins og þeim, að svipaðir atburðir hafi gerst hér og í Noregi og rannsakaðir voru af sérstakri nefnd þar.

Að líkja stöðu mála hér við það, sem gerðist í Noregi, staðfestir aðeins haldleysið í málstað manna eins og Steingríms J. Sigfússonar, sem vill greinilega afflytja Íslandssöguna með því að láta eins og hún hafi gerst í Noregi!

Skýrslan, sem birt var í dag, staðfestir, að raunar var ákaflega lítið gert hér á tímum kalda stríðsins til að tryggja innra öryggi miðað við það, sem gerðist í öðrum löndum. Hið litla, sem gert var, dugði þó til að stemma stigu við umsvifum KGB og GRU, þótt vissulega hafi þessar sovésku njósnastofnanir lagt net sín hér á landi.

Í skýrslu nefndarinnar segir, að enn sé ekki fullkannað, hvað sé að finna í gögnum Pósts og síma, sem flutt voru í Þjóðskjalasafn við einkavæðinguna. Ég var talsmaður þess á vettvangi ríkisstjórnar, að hluta af andvirðinu, sem fengist fyrir sölu ríkisfyrirtækja, yrði varið til að standa undir kostnaði við frágang á skjölum, sem bærust Þjóðskjalasafni vegna einkavæðingarinnar. Ég talaði fyrir daufum eyrum eins og skjalabrettin óskráðu sýna.

Sagt er frá því í nefndarskýrslunni, að í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg hafi verið innréttað sérstakt herbergi til að taka á móti NATO-skjölum í samræmi við öryggiskröfur NATO. Þetta herbergi var á annarri hæð í norðurenda hússins, þar er nú matstofa og eldhús. Herbergið er auðþekkjanlegt að utan, því að rimlar eru fyrir gluggum þess. Halda mætti, að þeir séu til minningar um fangelsið, sem var í húsinu á sínum tíma.

Vek athygli á pistli, sem ég setti á síðuna í morgun um kvikmyndina Das Leben der Anderen.