Miðvikudagur, 07. 02. 07.
Dagurinn leið hratt á sjúkrahúsinu, enda hef ég nóg fyrir stafni, þótt ég sé bundinn við rúmið vegna kerans, sem dælir úr mér lofti til að lungað opnist. Mér finnst orðið nóg um allt loftið í mér. Það er þó bót í máli, að ég verð ekki eins og sprungin blaðra, þegar það er horfið, heldur með heilbrigt og öflugt lunga.
Í dag var lagt fram á alþingi skriflegt svar frá mér við spurningum Steingríms J. Sigfússonar um símhleranir og fleira. Eins og fram kemur í svarinu hefur alþingi samhljóða mótað skýra leið að því marki að upplýsa eins og kostur er, hvernig staðið var að þeim málum, sem hvíla á Steingrími J. og birtast í fyrirspurnum hans. Á grundvelli þeirra niðurstaðna, sem liggja munu fyrir, þegar sú leið hefur verið farin á enda, er sjálfsagt að meta stöðuna að nýju og taka ákvarðanir um frekari aðgerðir, ef nauðsynlegt er talið.
Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir mig um ráðstafanir lögreglu og annarra gegn barnaníðingum.