31.10.2006 20:52

Þriðjudagur, 31. 10. 06.

Eftir því sem fleiri dagar líða frá úrslitum í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna hér í Reykjavík, held ég, að fleirum verði ljóst, hve útlistanir fjölmiðlunga í þá veru, að ég hafi hlotið þar illa útreið eiga við lítil rök að styðjast. Í þeim útlistunum er augljóslega holur hljómur, þegar engir frambjóðendur nema Geir H. Haarde og Guðlaugur Þór Þórðarson náðu settu marki. Ég hélt þó mínu sæti, þriðja sætinu á listanum, sem er meira en unnt er að segja um ýmsa aðra. Það er sérstakt rannsóknarefni, hvaða mælistikur eru notaðar til að meta árangur manna - ég er vissulega stoltur af því, að mælikvarðinn virðist jafnan strangastur, þegar ég á í hlut.

Sé notaður sami mælikvarði á stöðu mína eftir prófkjörið og almennt er notaður við mat á slíkum úrslitum, sjá allir sanngjarnir menn, að fráleitt er að líta þannig á, að ég geti ekki ekki verið sáttur við niðurstöðuna, eins og ég sagði í pistli mínum síðastliðinn sunnudag.

Ég gef ekki mikið fyrir skýringar stjórnmálafræðinga úr háskólunum, hvort sem þeir eru í Háskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri. Ég veit til dæmis ekki, hvaðan Birgir Guðmundsson á Akureyri hefur vitneskju sína um mál innan Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur aldrei leitað skýringa á neinum málum, sem mig varða, hjá mér. Hvaða heimildir hefur hann fyrir niðurstöðum sínum? Ég hef aldrei lesið neina fræðilega grein eftir hann um stjórnmál, þar sem getið er heimilda. Skyldi hann hafa ritað slíka grein? Þá veit ég ekki, hvernig Gunnar Helgi Kristinsson við Háskóla Íslands getur dregið einhver pólitísk skil á milli mín og Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar - hvar hafa þau birst honum? Byggist þessi niðurstaða á einhverjum rannsóknum, sem ekki hafa verið birtar opinberlega?

Í áratugi hef ég fylgst með umræðum um stjórnmál og greiningu á þeim í mörgum löndum bæði austan hafs og vestan. Frumstæðari umræðum um stjórnmál líðandi stundar af hálfu svonefndra álitsgjafa, sem vilja láta líta á sig sem hlutlausa, hef ég ekki kynnst annars staðar en hér. Ég hef einnig stundað slíka greiningu í óteljandi greinum, meðal annars hér á síðunni, en aldrei gert það í nafni einhvers hlutleysis, yfirlætis eða menntahroka á kostnað þeirra, sem taka að sér að vinna verk í þágu almennings með því að bjóða sig fram til þings eða sveitarstjórna.