30.10.2006 22:05

Mánudagur, 30. 10. 06.

Margir hafa haft samband við mig í dag til að óska mér til hamingju með árangur minn í prófkjörinu, þetta hafi verið meira en góður varnarsigur miðað við það, hvernig í pottinn var búið. Ég þakka allar þessar góðu kveðjur.

Hér hafa verið fulltrúar franska stórfyrirtækisins EADS, sem meðal annars framleiðir Super Pouma þyrlur og hafa þeir verið að kynna sér starfsemi Landhelgisgæslu Íslands auk þess að hitta mig að máli í dag. Þeim finnst þjónusta við landhelgisgæsluna mjög spennandi verkefni, því að fáir aðilar reki leitar- og björgunarþyrlur við erfiðari aðstæður og geri því meiri kröfur til björgunartækjanna en gæslan okkar.

Miðvikudaginn 25. október, þegar hættuástand var boðað á Keflavíkurflugvelli vegna bilunar í vél tveggja hreyfla þotu á leið yfir hafið, sendi landhelgisgæslan í fyrsta sinn þrjár þyrlur á vettvang, sem fylgdu þotunni inn til lendingar. Þessi viðbúnaður hvarf hins vegar í skugga fjölmiðlaumfjöllunar um útkallið, sem var ekki alveg hrökrlaust en skilaði þó því, sem um var beðið á skömmum tíma, þegar þúsundir manna fóru í viðbragðsstöðu.

Ég sá kvikmyndina Hinir framliðnu (Departed) efir Martin Scorsese og þótti hún vel gerð. Leonardo DiCapro fer á kostum en mér þótti Jack Nicholson þó bestur og er ég ekki sérstakur aðdáandi hans - persónan, sem hann skapar þarna er með ólíkindum ógeðfelld en þó þannig, að hún virðist raunveruleg í meðförum Nicholsons. Hitt er svo umhugsunarefni, að mynd sem þessi skuli látin gerast í Boston, því að ímynd þeirrar borgar er ekki á þann veg, að samrýmst því, sem þarna er sýnt. Lögreglumyndir af þessu tagi hafa yfirleitt verið tengdar öðrum borgum í Bandaríkjunum og ekki Írum.