24.10.2006 18:43

Þriðjudagur, 24. 10. 06.

Nú er komin lifandi mynd inn á vefsíðu mína og eru nýmæli að geta birt efni með þessum hætti. Myndbandi með lokaorðum ræðu Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins á fundi í Valhöll laugardag 21. október hefur verið hlaðið inn á vefinn youtube.com. Þaðan er svo myndbrotið birt á minni síðu og notendur vefjarins geta horft og hlustað á lok ræðunnar. Það á ekki að þurfa nein sérstök tæknileg skilyrði til að sjá myndbandið. Stundum er þó smá hliðrun myndar og hljóðs þannig að það fer ekki alveg saman.

Enn hefur verið staðfest, að í engu tilviki var gripið til þess ráðs að hlera síma á sjöunda áratugnum, án þess að dómari tæki þá ákvörðun. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið brást við tilmælum lögreglustjórans í Reykjavík um varrúðarráðstafanir vegna ótta við skipulögð mótmæli með því að skjóta þeim til dómara. Eftir að hafa farið yfir gögn málsins tók dómari ákvörðun sína. Á hinn bóginn liggur ekkert fyrir um, að heimild dómarans hafi verið nýtt, eftir að Kjartan Ólafsson, forvígismaður sósíalista og herstöðvaandstæðinga á þessum árum, fékk aðgang að gögnum, sem hann varðar í Þjóðskjalasafninu. Kjartani finnst gögnin rýr. Við hverju bjóst hann?

Hér er fjallað um málið í stærra samhengi.