21.10.2006 22:09

Laugardagur, 21. 10. 06.

Dagurinn hófst klukkan 09.00 í Grensáskirkju, þar sem kirkjuþing var sett og flutti ég ávarp og talaði blaðalaust, svo að ekki verður til þess vísað hér á síðunni. Ræddi ég meðal annars hið sögulega samkomulag frá því í gær um endanleg eignaskipti milli ríkis og kirkju.

Klukkan 10.30 héldum við Geir H. Haarde fund í Valhöll um öryggismál Íslands, gæslu ytra og innra öryggis. Fundurinn var fjölmennur og þótti mér mikils virði, hve Geir var afdráttarlaus í stuðningi við mig, þegar hann andmælti því, sem hann sagði „ógeðfellda aðför“ að mér og reynt væri að koma höggi á mig vegna prófkjörsins. Ræðu mína þarna flutti ég einni blaðalaust, svo að ekki verður til hennar vísað hér á síðunni.

Við Rut fórum síðan niður Skólavörðstíginn upp úr klukkan 14.00, þar sem boðin var kjötsúpu og nutum við hennar hjá Eggert feldskera, en þar margt fólk eins og alls staðar á stígnum.

Klukkan 16.00 var ég í Aðventkirkjunni og tók þátt í hátíð vegna 100 ára afmælis hennar - enn flutti ég blaðalaust ávarp og óskaði söfnuðinum til hamingju á þessum tímamótum.