18.10.2006 21:14

Miðvikudagur, 18. 10. 06.

Þegar ég var að aka í qi gong um klukkan 08.00 heyrði ég sagt frá ályktun stjórnar SUS gegn því, að hér verði stofnuð öryggis- og greiningarþjónusta innan lögreglunnar í fréttum hljóðvarps ríkisins, en athygli mín á þessari ályktun hafði verið vakin kvöldið áður, þegar hún birtist á vefsíðum. Ég varð mest undrandi á því, þegar ég las ályktunina, að augljóst var, að höfundar hennar virtust ekki hafa haft fyrir því að kynna sér málið. Lét ég það sjónarmið í ljós í hádegisviðtali á Stöð 2 og síðan í fréttatíma Sjónvarpsins. Fréttamenn spurðu mig, hvort ég liti á þetta sem framlag stjórnar SUS til prófkjösrbaráttunnar, ég taldi það af og frá. Það væri í sjálfu sér ágætt að fá tækifæri til að ræða og skýra þetta mál, úr því að misskilningur í því væri jafn mikill og fram kæmi í ályktuninni.

Ég hef ekki lagt fram neinar tillögur um öryggis- og greiningarþjónustu heldur kynnt tvær skýrslur um málið eins og fram hefur komið hér á síðunni. Þá er að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að leitað sé úrskurðar dómara, áður en hafin er eftirgrennslan auk þess sem ráðgert er að alþingismenn sitji í eftirlitsnefnd, samkvæmt þeim hugmyndum, sem fram koma í þeim skýrslum, sem ég hef kynnt en í ályktun stjórnar SUS er látið eins og hvorugur varnaglinn yrði sleginn.

Menn kunnugir málefnum SUS telja, að leita verði aftur til fjölmiðlamálsályktunar stjórnar SUS sumarið 2004 til að finna fjölmiðlaumfjöllun á borð við þessa. Hafi það verið tilgangur stjórnar SUS að komast í fréttirnar með því að álykta á þennan veg um mál á minni könnu, tókst það svo sannarlega.

Að óreyndu hefði ég ætlað, að í ljósvakamiðlunum yrði rætt um annað af sama meiði í dag. Vísa ég þar til greinarinnar í Fréttablaðinu eftir dr. Þór Whitehead, þar sem hann svarar rangfærslum Össurar Skarphéðinssonar og bendir á, að Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi utanríkisráðherra, og Steigrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, gerðu Róbert Trausta Árnason út af örkinni til að kanna STASI-skjöl: „Einkum vildi Jón Baldvin vita, hvort Svavar Gestsson hefði verið í hópi erindreka STASI,“ segir í skriflegri frásögn Róberts Trausta, en á þessum árum var Svavar menntamálaráðherra í stjórn með þeim Jóni Baldvini og Steingrími. Hvernig halda lesendur síðu minnar, að fjölmiðlamenn hefðu látið, ef Jón Baldvin og Steingrímur væru í Sjálfstæðisflokknum?

Jón Baldvin sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hann hefði falið Róberti Trausta þetta verkefni, af því að Íslandi hefði ekki verið nein leyniþjónusta. Þá vitum við það!