15.10.2006 9:02

Sunnudagur 15.10.2006

Var klukkan 13.30 um borð í bandaríska landgönguskipinu Wasp og skoðaði það undir leiðsögn skipherrans. Þetta er þriðja bandaríska herskipið með þessu nafni, sem kemur til landsins. Hið fyrsta kom í síðari heimsstyrjöldinni, annað árið 1962 og ef ég man rétt var flogið með gesti um borð í það og eru til ljósmyndir af gestum á flugþilfari þess. Þetta skip, sem er hér nú kom til sögunnar 1989. Um 1200 manns eru í áhöfninni en skipið hefur auk þess rými fyrir 1600 landgönguliða – en skipið er hannað með það fyrir augum að flytja landgönguliða hvert sem er í veröldinni og koma þeim í land með þyrlum, landgönguprömmum eða bryndrekum, sem eru jafnvígir á sjó og landi. Ég fékk tækifæri til að kynnast samskonar skipi Saipan, þegar ég tók sem blaðamaður þátt í flota- og heræfingum NATO við Noreg og í Noregi í mars 1984. Skrifaði ég greinaflokk um æfinguna í Morgunblaðið í apríl 1984 og birtist hann einnig í bók minni Í hita kalda stríðsins.

Að lokinni heimsókninni var ég fram eftir degi á kosningaskrifstofu minni og ræddi við þá gesti, sem þangað lögðu leið sína.