14.10.2006 11:20

Laugardagur 14. 10. 06.

Fór síðdegis á kosningaskrifstofu mína vegna prófkjörsins, þar sem fjöldi áhugasamra stuðningsmanna var við störf. Fyrir frambjóðanda er ómetanlegt að verða var við þann áhuga, sem vaknar hjá mörgum, þegar barátta af þessu tagi hefst.

Fórum klukkan 17.00 í Háskólabíó, þar sem Edda I - Sköpun heimsins var frumflutt um 70 árum eftir að hún var samin. Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti ásam Schola Cantorum en einsöngvarar voru Gunnar Guðbjörnsson og Bjarni Thor Kristinsson. Hermann Baumer stjórnaði en Hörður Áskelsson stjórnaði kórnum.

Verkið er magnþrungið og með því vildi Jón Leifs skapa mótvægi við Hring Niflungans eftir Wagner - en hann er í fjórum óperum og áttu Eddurnar að verða fjórar - Jón lauk við tvær og lagði drög að þeirri þriðju. Hann heyrði þessi verk sín aldrei flutt. Í tónleikaskránni segir Árni Heimir Ingólfsson, að kaflar úr Eddu I hafi verið fluttir á Norrænum tónlistardögum í Kaupmannahöfn í maí 1952 en þá hafi verið flissað í salnum og Jón Leifs hljóp niðurbrotinn út úr salnum og neitaði að fara inn aftur.

Í tíð minni sem menntamálaráðherra beitti ég mér fyrir fjárveitingum í því skyni að tölvuskrifa öll verk Jóns Leifs en án þess væri ekki unnt að flytja þau. Úr því að loks tókst að flytja Eddu I við fögnuð áheyrenda er þess beðið með vaxandi eftirvæntingu að Edda II verði flutt en Jón Leifs lauk við að semja hana í maí 1966.