12.10.2006 21:30

Fimmtudagur 12. 10. 06.

Fyrir hádegi fórum við á fund hjá bandaríska heimavarnaráðuneytinu og ræddum samstarf við það á grundvelli yfirlýsingarinnar samstarf Íslands og Bandaríkjanna í öryggismálum. Við vorum þarna fyrir rúmum tveimur árum og hefur starfsemi ráðuneytisins vaxið og eflst á þeim tíma, sem síðan er liðinn.

Síðdegis fór ég ásamt Geir H. Haarde forsætisráðherra á fund hjá Mueller, yfirmanni bandarísku alríkislögreglunnar FBI. Við ræddum samstarf á sviði löggæslu með vísan til yfirlýsingarinnar um samstarf í öryggis- og varnarmálum.

Ljóst er, að samstarf okkar og Bandaríkjamanna um öryggismál er að taka á sig nýja mynd og skiptir miklu framhaldið, að vel sé vandað til fyrstu skrefanna, sem stigin eru. Tilgangur okkar með þessum fundum er einmitt sá, að árétta nauðsyn þess.