11.10.2006 19:30

Miðvikudagur, 11. 10. 06.

Var klukkan 10.30 í höfuðstöðvum bandarísku strandgæslunnar og hitti þar Thad W. Allen yfirmann hennar. Ræddum við samstarf strandgæslunnar og Landshelgisgæslu Íslands.

Klukkan 11.40 vorum við komnir í bandaríska utanríkisráðuneytið en klukkan 12.00 komu þau Geir H. Haarde forsætisráðherra og Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra þangað. Þau fóru á fund með Condoleezzu Rice utanríkisráðherra og síðan var samkomulag ríkjanna um varnarmál undirritað við hátíðlega athöfn í Treaty Room ráðuneytisins.

Klukkan 13.30 var ég með ráðherrunum tveimur í Pentagon, þar sem Donald Rumsfeld tók á móti okkur með formanni bandaríska herráðsins og fleiri nánum samstarfsmönnum sínum og ræddum við framtíðarsamstarf þjóðanna á um 40 mínútna fundi.

Klukkan 16. 30 vorum við í Paul H. Nitze School of Advanced International Studies (SAIS) í John Hopkins University, þar sem Geir H. Haarde flutti erindi: Iceland-U.S. Relations and future Defense Arrangements.

Blaðamenn á Íslandi virðast nú hafa mestan áhuga á því, að Jón Baldvin Hannibalsson sagði síma sinn hafa verið hleraðan, þegar hann var utanríkisráðherra. Mér þykja þetta furðuleg ummæli og undarlegt, að hann veki máls á þessu núna. Hvað gerði hann í málinu á sínum tíma?