5.10.2006 22:29

Fimmtudagur, 05. 10. 06.

Fjármálaráðherra flutti fjárlagaræðuna í dag á þingi og var ég þar fyrir hádegi, en enginn virtist eiga erindi við dóms- og kirkjumálaráðherra vegna frumvarpsins, svo að ég fór í hádeginu í ráðstefnusal Þjóðminjasafns, þar sem Heimssýn var með fund. Ég flutti þar stutta ræðu, áður en fyrirlesarinn á fundinum, Christopher Heaton-Harris breskur Evrópuþingmaður úr Íhaldsflokknum ræddi afstöðu Breta til Evrópusambandsins og spurninguna um það, hvort þeir kynnu að segja sig úr sambandinu.

Úrsögn Breta er ekki á döfinni, en þeir hafa ekki áhuga á evruaðild. aldsflokkurinn mun styðja aðild áfram svo framarlega, sem ekki verður krafist, að Bretar gangi lengra á samrunabrautinni. Hann spáði því, að Tyrkland kæmist aldrei í sambandið, sagði fiskveiðistefnu þess hörmulega, sagði Breta ekki hafa nein áhrif innan ESB, hið eina, sem Tony Blair hefði náð fram í formennskutíð Breta hefði verið lengri frestur til að íhuga stjórnarskrárvanda ESB. Hann sagði engan bresku flokkanna mæla með aðild Bretlands að Schengen, það myndi aðeins veikja landamæravörsluna.

Klukkan 15.00 var ég í Þjóðmenningarhúsinu og kynnti nýtt skipurit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og nýja forystusveit liðsins undir stjórn Stefáns Eiríkssonar.

Klukkan 20.00 hélt ég fyrsta fundinn í kosningamiðstöð minni vegna prófkjörsins. Miðstöðin er að Skúlagötu 51 og opna ég hana sunnudaginn 8. október klukkan 15.00