Miðvikudagur, 04. 10. 06.
Við upphaf þings og í ræðum um stefnuræðu forsætisráðherra ræddu talsmenn stjórnarandstöðu flokkanna þriggja um það, að nú hefðu þeir náð höndum saman og byðu einhuga kost á móti ríkisstjórnarflokkunum.
Í umræðum um skýrslu forsætisráðherra um niðurstöðu varnarviðræðnanna á alþingi í dag kom glöggt fram, að stjórnarandstaðan er síður en svo samstiga í öryggis- og varnarmálum. Samfylkingin skilar auðu, vinstri/græn vilja Ísland úr NATO og friðlýsingu eins og áður, frjálslyndir vilja koma hér upp vopnuðum sveitum.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði Samfylkinguna ekki taka pólitíska ábyrgð á samkomulaginu við Bandaríkjastjórn. Þar með hefur hún markað allt aðra stefnu en jafnaðarmenn hafa haft, því að þeir hafa hingað til stutt aðild að NATO og varnarsamstarf við Bandaríkin. Hver er ástæðan fyrir þessari stefnubreytingu? Jú, að það hvíli leynd yfir varnaráætlunum samkvæmt samkomulaginu við Bandaríkjamenn.
Gylfi Þ. Gíslason sagði frá því, að hann hefði ekki getað stutt aðild Íslands að NATO 1949 vegna leyndar yfir samningsgerðinni, hins vegar hefði hann getað stutt varnarsamninginn 1951 vegna þess að þá hefðu verið veittar nægar upplýsingar. Þeim samningi fylgdu áætlanir og viðaukar, sem voru huldir leynd og ekki kynntir öðrum en ráðherrum og embættismönnum. Þetta leyndartal Samfylkingarinnar er aðeins fyrirsláttur og breiðsla yfir þá staðreynd, að flokkurinn er ósamstiga í öryggis- og varnarmálum. Hann skilaði auðu í málunum á síðasta landsfundi og hefur ekki enn náð vopnum sínum.
Í umræðunum á þingi í dag taldi ég sundurþykkju stjórnarandstöðunnar stóru fréttina auk þeirrar stefnubreytingar jafnaðarmannaflokksins, Samfylkingarinnar, að vilja ekki axla pólitíska ábyrgð vegna samkomulagsins við Bandaríkjamenn. Þar með væri samstaða svonefndra lýðræðisflokka á tímum kalda stríðsins, Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks rofin. Sjónarmið Alþýðubandalagsins hefðu enn náð yfirhöndinni meðal jafnaðarmanna.
Í NFS var sagt frá þremur ræðum samfylkingarfólks í umræðunum - ekkert annað komst að á þeim bæ. Aðeins var sagt frá ræðum stjórnarandstæðinga í fréttum sjónvarpsins kl. 19.00.