Sunnudagur, 01. 10. 06.
Fyrstu skrifstofurnar fyrir prófkjör okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík voru opnaðar í dag, það er hjá Illuga Gunnarssyni og Guðlaugi Þór Þórðarsyni.
Í fréttum var sagt frá því, að 70 herstöðvaandstæðingar hefðu farið í mannauða herstöðina á Keflavíkurflugvelli. Í aðdraganda atburðarins héldu talsmenn hópsins, að hann yrði svo fjölmennur, að hleypa yrði inn í hollum - það var ekki sagt frá því í fréttum, að þessum hópi hefði verið skipt, þegar hann fór inn á varnarsvæðið.
Björgvin Guðmundsson segir í leiðara Fréttablaðsins í dag:
„..er óskiljanlegt af hverju vinstrimenn á Íslandi hafa í gegnum tíðina verið andvígir því að landvarnir landsins séu tryggðar í samstarfi við aðrar þjóðir. Íslendingar höfðu ekki og hafa ekki enn burði til þess einir og óstuddir.
Séu vinstrimenn sammála því hlutverki ríkisins að verja borgarana hverja fyrir öðrum hljóta þeir einnig að vera sammála því hlutverki ríkisins að verja borgarana gagnvart órétti borgara annarra ríkja. Annars eru þeir ekki samkvæmir sjálfum sér.
Það er ekki hægt að afgreiða öryggismál þjóðarinnar með því að segja að engin ógn steðji að landinu. Við verðum að gera ráðstafanir og vera reiðubúin að bregðast við. Hvað hafa vinstri grænir annað fram að færa í umræðu um öryggis- og varnarmál Íslands en að skamma bandaríska herinn fyrir mengun á varnarsvæðinu? Eru vinstri grænir ekki samkvæmir sjálfum sér?
Miðað við getu þjóðarinnar til að verjast utanaðkomandi ógn, vilja Bandaríkjamanna til varnarsamstarfs og stöðu heimsmála er niðurstaðan í varnarviðræðum íslenskra og bandarískra stjórnvalda fullkomlega ásættanleg. “