14.7.2005 22:32

Fimmtudagur, 14. 07. 05.

Var með kynningu á Þingvöllum klukkan 20. 00 og sagði þar frá störfum og stefnu Þingvallanefndar, þegar gengið var í blíðskaparveðri frá Hakinu að Þingvallakirkju, þar sem séra Kristján Valur Ingólfsson lauk ferðinni með kvöldbænum.

Þetta kvöld var frétt um það í hljóðvarpi ríkisins, að sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefði lýst óánægju sinni með bréf Þingvallanefndar vegna óska um umhverfismat á gamla Gjábakkaveginum, en í bréfi fyrir hönd nefndarinnar til umhverfisráðuneytisins frá 15. júní hafði ég ítrekað upphaflegt sjónarmið hennar til stæðis fyrir Gjábakkaveg, það er að æskilegast væri að viðhalda gamla veginum frá 1907. Vegagerðin taldi þann veg ekki geta svarað kröfum tímans og vildi nýtt stæði og náðist samkomulag um stæði utan þjóðgarðsins. Þessi ákvörðun var kærð og krafist umhverfismats á gamla veginum, sem umhverfisráðuneytið samþykkti í mikilli óþökk sveitarstjórnar, en hún vill greinilega skella skuldinni að einhverju leyti á Þingvallanefnd og er ég sammála Guðna Ágústssyni meðnefndarmanni mínum, að þessi skilningur sveitarstjórnar á bréfi Þingvallanefndar er óheppilegur, enda byggist afstaða sveitarstjónarinnar til Þingvallanefndar í þessu samhengi á misskilningi.