Þriðjudagur, 01. 02. 05.
Sótti í hádeginu opinn fund borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna í Valhöll, þar sem rætt var um vanda einkaskólanna í Reykjavík.
Atkvæðagreiðsla á alþingi klukkan 13.30.
Fór af þingi í ráðstefnusal Þjóðminjasafns, en þar hafði ég ekki fyrr sótt málþing. Er aðstaðan hin ágætasta, en fundarefnið var Saga stjórnarráðsins. Sögufélag stóð fyrir málþinginu og voru þau Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur, Helga Jónsdóttir borgarritari, Svanur Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði og Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, frummælendur. Luku þau öll lofsorði á verkið. Þau Svanur og Kristín töldu, að meira hefði mátt fjalla um hlut alþingis og þingræðið, en ég sagði ritstjórn verksins hafa talið það efni í sérstakt rit á vegum alþingis að lýsa þeim þætti.
Um 16. 30 fór ég á borgarstjórnarfund og sat hann til loka.