21.9.2002 0:00

Laugardagur 21.9.2002

Klukkan 07.30 sóttu nágrannar mínir í Fljótshlíðinni mig að Kvoslæk og við ókum að Reynifelli, eyðibýli fyrir vestan Þríhyrningin, þar sem hestar biðu okkar. Þaðan héldum við í göngur og fór ég í áttina að Austurdal og smalaði þaðan í hlíðunum fyrir austan Eystri-Rangá í sæmilegri birtu en þegar dró nær Þríhyrningi fórum við inn í niðaþoku og rákum í henni austur fyrir Þríhyrning þar til við komum til byggða fyrir ofan Lambalæk um klukkan 18.00. Var ég kominn heim að Kvoslæk um klukkan 19.00.