Laugardagur 4.11.2000
Fór í hádeginu á fund hjá Bandalagi íslenskra listamanna í Hafnarhúsinu, þar sem rætt var við okkur Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra um reynsluna af menningarborgarárinu og hvað við sæjum framundan. Klukkan 15.00 fór ég í Gerðarsafn, þar sem Búnaðarbankinn stendur að yfiritssýningu á verkum Tryggva Ólafssonar listmálara í tilefni af 70 ára afmæli bankans og 60 ára afmæli Tryggva. Einnig er í safninu sýning á verkum eftir Guðrúnu Halldórsdóttur, leirlistamann, undir heitinu Freyjur og för. Klukkan 18.00 fórum við Rut á afmælishátíð Richard Wagner félagsins, þar sem meðal annars var tilkynnt um útgáfu bókarinnar Wagner og völsungar eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing, en þar lýsir hann því, hvernig Wagner nýtti sér Eddurnar og fleira íslenskt efni við sköpun listaverka sinna. einnig flutti Barry Mullington fyrirlestur um Wagner sem félagsveru.