1.2.1997 0:00

Laugardagur 1.2.1997

Laugardaginn 1. febrúar var háskólahátíð, síðan fórum við á þrjár listsýningar og klukkan 17.00 var boð inni á Bessastöðum vegna afhendingar á nýsköpunarverðlaunum forseta Íslands. Var þá komið versta veður, forsetahjónin höfðu verið á Akureyri um daginn og gat flugvélin ekki lent á Reykjavíkurflugvelli vegna veðurs. Var okkur sagt, að hún hefði getað komist niður á Keflavíkurflugvelli en ekki að flugstöðinni vegna hálku. Lögregla sótti hjónin út í flugvél á brautinni og klukkan 18.00 voru þau komin til athafnarinnar á Bessastöðum, sem þá gat hafist. Fór rafmagn hvað eftir annað af forsetasetrinu þennan tíma, sem við vorum þarna. Um kvöldið fórum við Rut í Þjóðleikhúsið og sáum Kennari óskast eftir Ólaf Hauk Símonarson - þar geta menn meðal annars kynnst togstreitunni um hlut uppeldis- og kennslufræðinnar og viðhorfum í réttindabaráttu kennara með hana að vopni gagnvart þeim, sem kallaðir eru leiðbeinendur, af því að þeir hafa ekki próf í þessari fræðigrein.