18.10.1997 0:00

Laugardagur 18.10.1997

Klukkan 11 flutti ég stutt ávarp við upphaf málþings í Menntaskólanum við Sund um málefni og stöðu skólans. Hafði ég tíma þar til að hlusta á framsöguræður, sem allar voru hinar fróðlegustu. Sjálfstæði framhaldsskólanna er að aukast og jafnframt tel ég, að þeir muni í vaxandi mæli keppa um nemendur, að minnsta kosti hér á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna beri skólunum að skerpa sjálfsmynd sína og gera nemendum með skýrari hætti en til þessa grein fyrir því, hvað þeir hafa að bjóða. Almennt voru ræður manna jákvæðar á þessu málþingi, sérstaklega finnst mér skemmtilegt að heyra í fulltrúum nemenda, bæði hér og við vígslu nýja skólahússins í Garðabæ voru fulltrúar nemenda hvað jákvæðastir og mest í mun að gera skólann sinn betri og halda merki hans hátt á loft. Klukkan 16 tókum við þátt í hátíð Rithöfundasambands Íslands að Dyngjuvegi 8, þar sem sambandið var formlega að flytja aðsetur sitt í hús, sem Gunnar Gunnarsson reisti sér um 1950. Davíð Oddsson beitti sér fyrir því sem borgarstjóri að húsið var keypt á sínum tíma og skyldi það notað í þágu listamanna. Hefur ráðstöfun þess nú verið ákveðin með þessum hætti. Í minn hlut kom að afhenda Ingibjörgu Haraldsdóttur, formanni Rithöfundasambandsins, gjafabréf frá nokkrum velunnurum rithöfunda, sem gefa þeim myndir Gunnars sonar skáldsins úr Fjallkirkjunni og myndskreyttan texta úr Sonnettusveig, hanga þessar um 150 myndir á veggjum Dynguvegs 8 og gefa stofunum þar sérstakan svip.