Föstudagur 16.11.2001
Dagur íslenskrar tungu. Klukkan 11.00 setti ég athöfn í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem Davíð Oddssyni var afhent fyrsta eintak af margmiðlunardiskinum Alfræði íslenskrar tungu. Síðan héldum við á Akranes en rúmlega 12.30 var ég í Brekkubæjarskóla, þar sem opnuð var ný álma með góðri veislu, síðan fórum við í Grundarskóla, þar sem börnin minntust dagsins með skemmtilegri dagskrá. Þá var ekið í Andakílsskóla, þar sem þriggja manna móttökunefnd nemenda sýndi okkur skólann sinn. Loks heimsóttum við Kleppjárnsreykjaskóla og hittum nemendur við störf þeirra auk þess sem við sáum atriði úr söngleik, sem þeir eru að setja upp undir stjórn Flosa Ólafssonar. Klukkan 16.30 hófst hátíðardagskrá dags íslenskrar tungu í Reykholtskirkju og þar var Ingibjörg Haraldsdóttir sæmd verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar en Námsflokkar Reykjavíkur og Félag framhaldsskólanema fengu viðurkenningu.