18.12.1998 0:00

Föstudagur 18.12.1998

Klukkan 16.00 fór ég í Gunnarshús, þar sem fyrstu styrkir úr Bókasafnsjóði höfunda voru veittir við hátíðlega athöfn. Birgir Ísl. Gunnarsson seðlabankastjóri og fyrrverandi menntamálaráðherra er formaður stjórnarinnar. Þessi sjóður hefur víðara starfssvið en forveri hans og betur er að honum búið að mörgu leyti, nú fengu til dæmis höfundar myndverka í fyrsta sinn greiðslur fyrir afnot verka sinna í bókasöfnum og einnig þýðendur. Við þessa athöfn skýrði ég frá því, að ríkisstjórnin hefði samþykkt tillögu mína um nýjan sjóð, Launasjóð fræðarithöfunda, sem verður starfræktur undir handarjaðri Rannsóknarráðs Íslands. Örugglega á að vera unnt að veita styrki úr þeim sjóði árið 2000, ef til vill einnig árið 1999, ef fjármunir fást.