3.10.1997 0:00

Föstudagur 3.10.1997

Klukkan 17.00 fórum við í Fjölbrautarskólann í Garðabæ og tókum þátt í hátíðahöldum vegna þess að skólinn er fluttur í nýtt húsnæði. Var fjöldi manns þar í hátíðarskapi. Flutti ég ávarp og síðan skoðuðum við glæsilegt skólahúsnæðið. Athygli mína vakti, að sjónvarpið sá ekki ástæðu til að vera á staðnum og segja frá þessum merka viðburði í sögu skólans eða þróun framhaldsskólakerfisins, þótt það hafi hins vegar sent menn á vettvang, þegar nemendurnir komu frá Sauðárkróki. Þótti mér athöfnin í Garðabæ ekki síður markverð þennan dag en síðasta sprengingin í Hvalfjarðargöngum. Klukkan 20.00 opnaði ég sýningu í Listasafni Íslands á verkum Gunnlaugs Schevings. Er ástæða til að hvetja sem flesta til að sækja þessa merkilegu sýningu.