31.10.1997 0:00

Föstudagur 31.10.1997

Vél Íslandsflugs frá Bíldudal lenti um hádegisbilið, en klukkan 14.30 efndi ég til blaðamannafundar um nýja skýrslu um þátttöku stúlkna og kvenna í íþróttum með Hönnu Katrínu Fredriksen blaðamanni, sem var formaður nefndar, sem samdi skýrsluna á grundvelli ályktunar Alþingis. Klukkan 17.30 kom síðan Þorvaldur Friðriksson, fréttamaður hjá RÚV, til mín og tók við mig viðtal um ferð Kínaforseta til Bandaríkjanna, sem var útvarpað í fréttaauka á laugardegi, 1. nóvember. Hafði lítill tími gefist hjá mér til að huga að því viðfangsefni, en eftir að hafa haft erlendar fréttir og alþjóðamál sem áhugaefni í áratugi er eins og maður búi þar að þekkingu, sem auðvelt er að grípa til með skömmum fyrirvara og tengja við atburði líðandi stundar. Að verulegu leyti endurtekur sagan sig, þótt þátttakendur í atburðunum séu aðrir eins og umgjörðin.